Tómata- og mozzarellasalat

Mozzarellaostur, mynd frá ms.is
Mozzarellaostur, mynd frá ms.is

Það er fátt ferskara og bragðbetra en ekta ítalskt tómata- og mozzarellasalat. Við erum með eigin útgáfu af þessu klassíska salati með avocado sem okkur langar að deila. Salatið má borða sem léttan hádegis- eða kvöldverð eða forrétt. 

Í Mjólkursamlagi KS í Skagafirði er framleitt mikið af Mozzarellaosti. Mozzarellaostur er svokallaður ferskostur. Hann er geymdur í saltlegi og er ýmist notaður ferskur eða í matargerð, t.d. á pizzur. Osturinn er framleiddur úr kúamjólk og er með skemmtilega áferð, mjúkur og teygjanlegur. Osturinn er frekar hlutlaus á bragðið og tekur vel við þegar hann er kryddaður og settur saman með öðrum mat, eins og t.d. í þessu salati.

Uppskrift:

200 g tómatar, skornir í teninga eða litlir tómatar skornir í tvennt
120 g litlar mozzarella kúlur, skornar í tvennt
1 þroskað avocado (lárpera) skorið í teninga (má sleppa)
Ólífuolía
Balsamico
Niðurskorin basilika
Salt og pipar

Aðferð:
Blandið vel saman tómötunum, mozzarellaostinum og avocadoinu í skál.
Hrærið saman við olífuolíuna, balsamicoið, basilikuna og salt og pipar. Berið fram og njótið!


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food