Þurrkuð rjúpa

Skotveiðimenn í Skagafirði eru margir og hefur Skotfélagið Ósmann byggt sér upp frábæra aðstöðu í firðinum til æfinga og félagsstarfs. Meðlimir félagsins eru margir hverjir miklir matmenn og okkur hjá Matarkistunni tókst að komast í nokkrar af þeirra allra skemmtilegustu villibráðar uppskriftum. Þessi aðferð og uppskrift við að salta og þurrka rjúpu er ein þeirra. Þetta er gert fyrir hver jól hér í Skagafirðinum hjá Jóni og Sigrúnu Öldu. Njótið vel!

Þurrkuð rjúpa

Vængir eru höggnir eða klipptir frá búknum. Síðan er hamurinn opnaður og bringustikkið rifið laust. Það er síðan skolað, ef þarf og lagt í gróft salt, alveg hulið í salti. Látið liggja í 14 til 16 tíma í saltinu, fer dálítið eftir smekk. Eftir söltun er bringustykkið skolað vel og þerrað. Þá er spotti þræddur í gegnum stykkið ofanvert og það hengt upp til þurrkunar. Ég hef látið það hanga inni við í ca. dag, til að fá smá skurn á það. Síðan hengt upp úti við. Það fer síðan eftir útihita og vindblæstri hve langan tíma það tekur fyrir kjötið að þorna. Nauðsynlegt er að fylgjast með því öðru hvoru, þannig að kjötið ofþorni ekki. Gæti tekið 2 til 3 vikur að verða tilbúið. 

Sósa með rjúpunni

½ dós sýrður rjómi 18 %

2 matsk. majones

1 dl. vel þeyttur rjómi

Sítrónusafi, eftir smekk

Bláberjasulta, eftir smekk

Öllu hrært vel saman og sultan sett síðust útí.

 

Gott er bera rjúpuna fram með ristuðu brauði, sem forrétt. Fyrir þá sem kunna að meta góðan bjór, þá skemmir hann ekki fyrir með þessum rétti.


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food

info@matarkistanskagafjordur.is