Þorsk ceviche

Séð út á Skagafjörð og Drangey
Séð út á Skagafjörð og Drangey

Það er mikil fiskveiði og útgerð í Skagafirði. Fiskur er líka herramanns matur, hvort sem þú veiðir hann sjálfur eða kaupir úti í búð. Um áramótin prófuðum við hjá Matarkistunni að laga perúskt þorsk ceviche í forrétt. Ceviche er mjög ferskur og hollur réttur. Hrár fiskur er sneiddur niður, látinn marinerast í sítrusvökva og kryddi og svo borðaður með ristuðu brauði eða fersku snittubrauði. Undirbúningur réttarins er mjög auðveldur og hann er í raun ekki eldaður, heldur bara marineraður. Hreinleiki og ferskleiki hráefnisins skiptir því miklu máli. Þessi uppskrift dugar í forrétt fyrir um 4.

Uppskrift:

  • 400 g þorkhnakkar (roð og beinlaus flök)
  • Safi af 3 sítrónum (eða 4 límónum)
  • 1 - 2 teskeiðar sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar
  • 2-3 vorlaukar, fínt saxaðir
  • 1-2 fersk chillialdin, fínt söxuð
  • 1 búnt kóriander, fínt saxað (helmingurinn af laufunum tekin frá)

Aðferð:

Skerið fiskinn í sneiðar (0,5-1cm þykkar) eða teninga og setjið í skál. Blandið restinni af hráefninu saman, hellið yfir fiskinn og hrærið vel. Látið marinerast í 20-30 mín. Ef þið látið fiskinn liggja mikið lengur í marineringunni þá getur sítrusinn „eldað“ fiskinn og hann verður stinnari og þurrari. Við heltum svo mestu af marineringunni, settum restina af kóriander laufunum yfir og bárum fram með bæði ristuðu og fersku brauði. 


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food

info@matarkistanskagafjordur.is