Spari-geit í norður-afrískum búningi

Matarkistan Skagafjörður
Matarkistan Skagafjörður

Þessi frábæra uppskrift af norður-afrískum geitapottrétt er kannski ekki mjög augljóslega skagfirsk eða úr skagfirsku hráefni. Það er hins vegar raunin. Uppskriftin er fengin frá Gunnari Sandholt og geitina er hægt að finna í Skagfirði. Þegar vindurinn blæs og úti er kalt er þetta einmitt matur sem svo gott er að gæða sér á. Réttinn er einnig hægt að gera úr lamb- eða ærkjöti. 

Við gefum Gunnari Sandholt orðið:

Geit handa Agnari

Síminn hringdi. „Ég er með geit í bílnum handa þér”, sagði Agnar oddviti. „Hún er auðvitað dauð”, bætti hann við sem betur fer. Þar með hófust kynni mín af íslenska geitastofninum. Geitin er ekki eins bragðmikil og frænka hennar, sauðkindin. Ekki laust við að sé af henni örlítið ertandi ullarbragð þó með ísætum keim. Hún tekur vel við kryddi. Mér var bent á að hún hentaði prýðilega í norður-afrískri pottréttagerð sem er frekar einföld en þrungin einhverskonar framandi kunnugleika. Kanill, kóríander, saffran, túrmerik, cayanne-pipar og engifer eru áberandi krydd. Rúsínur og möndlur gefa réttunum hátíðlegt yfirbragð, stundum jafnvel jólalegt   

Hráefni og undirbúningur:

  • 1 kg geitagúllas eða smábitar, ca 3-4 cm á kant
  • Smjör og olía.
  • 2 laukar og 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 1 tsk túrmerik
  • 1 tsk kummin
  • Bútur af engifer (1 cm), rifinn smátt
  • ¼ tsk cayanne pipar
  • Pipar og salt eftir smekk
  • 1 dós saxaðir tómatar
  • 1-2 bollar rúsínur
  • 2 msk steinselja, söxuð
  • 1 msk saxað kóríanderlauf
  • Lúka af heilum möndlum, afhýddum, steiktar í olíu uns þær verða ljósgullnar, ekki brenndar.

Eldamennskan:

Steikið ketið, laukinn, hvítlaukinn, engiferrótina og kryddið út í bráðið smjer og olíu í pott og hrærið vel í öllu saman. Hellið úr tómatdósinni yfir og bætið einu glasi af vatni út í. Látið suðuna koma upp og látið malla við vægan hita í minnsta kosti eina klukkustund. Rétturinn passar sig að mestu sjálfur, en rétt er að hræra öðru hverju í og bæta við vatni ef þarf, það er líka svo gaman að finna ilminn. Bæta svo rúsínum, steinselju og kóríander og láta malla hálftíma í viðbót, eða lengur, bara að ketið sé orðið vel meyrt og sósan aðeins farin að þykkna. Loks eru möndlurnar settar yfir, og skreytt aðeins með saxaðri steinselju. Borið fram með skagfirsku byggi, soðnu í hvítvíni.

Í þennan rétt má alveg eins nota lamb eða ærket.


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food