Öl-gríta

Þorrabjórinn frá Gæðing Mynd: Vinotek.is
Þorrabjórinn frá Gæðing Mynd: Vinotek.is

Í Skagafirði er mikil bjórmenning. Að Hólum er Bjórsetur Íslands sem hefur staðið fyrir árlegri Bjórhátíð. Bjórhátið verður haldin í fimmta sinn í sumar þann 6. júní 2015. Gæðingur er svo örbrugghúsið okkar hérna í Skagafirði. Brugghúsið var stofnað til að auka flóruna í bjórmenningu Íslendinga, til að bjóða upp á nýja og spennandi bjóra og það hafa þau svo sannarlega gert. Síðasta sumar opnuðu þau svo Microbar and bed hér á Sauðárkróki sem hefur gert mikla lukku hjá bjóráhugafólki í Skagafirði. Okkur fannst því tilvalið að gefa ykkur uppskrift af bjór-grítu sem hentar sérstaklega vel í köldu veðri og snjó eins og herjar á okkur þessa dagana.

Uppskrift:

30 gr smjör
1 laukur/rauðlaukur, smátt saxaður
3-4 hvítlauksgeirar, smátt saxaður
2 tsk chili duft
1-2 fersk chili, smátt söxuð
100-150 gr beikon, skorið í litla bita
500-600 gr nautagúllas
2-3 msk hveiti
1 Þorra Gæðingur
100 gr sveppir, skornir niður
1 dós kjúklingabaunir
1 dós niðursoðnir tómatar (diced)
1 dós tómatsósa 
1 msk sojasósa
Salt og pipar

Aðferð:

Steikið rauðlauk og hvítlauk í potti upp úr smjörinu (passið að það brenni ekki). Setjið chili-ið út í og steikið í ca. 1 mín og svo beikonið. Nautagúllasið fer því næst út í og er brúnað í kryddinu. Hveitið fer því næst út í og svo bjórinn. Restin; sveppir, baunir, tómatar, sojasósa og salt og pipar er svo sett í pottinn og þetta látið malla við vægan hita í 15-20 mín.


Gott er að hafa sýrðan rjóma og rifin ost sem meðlæti með þessum rétt. Ef þið eigið ferskan kóríander þá er gott að skera smá niður og bera fram með.

Myndin er fengin af heimasíðunni vinotek.is og þar segir jafnframt um Gæðing Þorrabjórinn:
„Gæðingur sendir frá sér brúnöl í ár sem heitir einfaldlega Gæðingur Þorrabjór. Í nefi er að finna skemmtilegan humlakeim, maltkeim sem gefur til kynna örlitla sætu og kannski keim af taði. Á tungu er hann fremur léttur, örlitla sætu er að finna með blómlegum humlakeim en gefur einnig til kynna að hér sé fínn matarbjór á ferð.“ 

Við hjá Matarkistunni Skagafirði mælum að sjálfsögðu heilshugar með þessum local bjór okkar!


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food