Nú stendur jólahátíðin sem hæst og nýja árið nálgast hratt. Skagfirsk Hólableikja er frábær forréttur á hátíðarborðið um áramótin. Uppskriftin er fengin frá verðlauna matreiðslumanninum Þránni Vigfússyni úr bókinni Eldað undir bláhimni – Sælkeraferð um Skagafjörð.
Þráinn er skagfirðingur sem hefur gert garðinn frægan sem fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og er núna yfirkokkur á veitingastaðnum Lava í Bláa lóninu. Þráinn vann 1. sæti í Matreiðslumaður ársins 2007, var í 1. sæti í One World matreiðslukeppninni árið 2008 og 2. sæti í Matreiðslumaður Norðurlanda 2009.
Hólableikja með agúrkusalati, rauðlauk og aioli úr ristuðu brauði
- 4 Hólableikjuflök, beinhreinsuð
- 90 g sítrónubörkur, rifinn
- 110 g sykur
- 110 g salt
Aðferð:
Hitið ofninn í 50°C og setjið stórt, eldfast mót, hálffullt af vatni inn í ofninn. Blandið saman salti, sykri og sítrónuberki og þekjið bleikjuflökin með kryddblöndunni. Látið kryddið liggja á fiskinum í 20 mínútur. Skolið því næst flökin og þerrið þau. Vefjið hverju flaki fyrir sig inn í plastfilmu. Leggið bleikjuna í eldfastamótið í ofninum og eldið í 12 mínútur. Takið bleikjuna þá upp úr heitu vatninu og leggið hana í klakavatn. Fjarlægið loks plastið af bleikjunni og glóðið hana með gasbrennara.
Meðlæti með Hólableikju
Agúrka:
1 agúrka / salt / sykur / hvítvínsedik / olía
Aðferð: Skerið agúrkuna í þykka borða. Blandið saman salti, sykri, hvítvínsediki og olíu og dreypið blöndunni yfir gúrkuna.
Rauðlaukur:
1 rauðlaukur, saxaður / safi úr 1 sítrónu / 30 gr flórsykur / salt og pipar
Aðferð: Blandið öllu saman og látið standa í 1 klst.
Aioli úr ristuðu brauði:
2 vel ristaðar brauðsneiðar / 150 g mjólk / 1 egg / ½ hvítlauksgeiri / 100 g olía / edik / sítrónusafi / salt og pipar
Aðferð: Rífið brauðið, blandið því saman við mjólkina og látið sjóða. Kælið. Maukið brauðmauk, egg og hvítlauk vel saman í blandara. Bætið olíunni rólega út í. Kryddið með sítrónusafa, ediki, salti og pipar.
Stökkir brauðteningar:
Hvítt eða gróft brauð / smjör / olía / 2-3 hvítlauksrif / salt
Aðferð: Skerið brauð í litla teninga. Htið smjör og olíu á pönnu, ásamt hvítlauk og salti. Ristið brauðið á pönnunni.