Hægeldaðir lambaleggir með rótargrænmeti

Nú þegar kólna fer er upplagt að nota tímann í eldhúsinu. Hægeldaðir lambaleggir gefa hita og orku í þreytta kroppa og eru því upplagðir í matinn þegar veturinn gengur í garð. Lambaskankar eru heldur ekki dýrasti bitinn sem þú kaupir en kjötið og réttir búnir til úr því geta smakkast frábærlega. Þessi réttur er frábær laugardags eða sunnudagsmatur þar sem eldunartíminn er eilítið langur.

Hægeldaðir lambaleggir

4 Lambaleggir
5 hvítlauksgeirar
2 sellerý stilkar
4 gulrætur
1 laukur
1 lítil dós tómatpúrra
600 ml vatn
1 teningur grænmetiskraftur
Olífuolía
Salt og pipar
Rosmarín
2 Lárviðarlauf

Rótargrænmeti

1 rófa
4-5 gulrætur
nokkrar kartöflur
1 nípa (parsnip/pastinakk)
Olífuolía
Salt og pipar
Rosmarín

Aðferð:

Brúnið leggina í olífuolíu í stórum potti. Takið þá frá og bætið í olíuna söxuðum hvítlauknum, og gróft skornu sellarýi, gulrótum, lauk og tómatpúrru. Brúnið vel í u.þ.b. tvær mínútur. Hérna má bæta við ca. 1 dl af rauðvíni og sjóða saman við ef vill. Kryddið vel leggina og setjið þá aftur í pottinn og bætið við vatni, krafti, lárviðarlaufi og rosmarín (annað hvort fersku eða þurrkuðu). Látið malla í potti í uþb 2 ½ - 3 klst eða þar til kjötið er við það að falla af beinunum. Takið kjötið úr pottinum, takið lárviðarlaufin frá og jafnvel er gott að sía vökvann frá grænmetinu. Bætið við smá rjóma og þykkingarefni í sósuna.

Skerið grænmetið í jafna bita, blandið saman með olífuolíu, salti, pipar og rosarín, annað hvort þurrkuðu eða fersku og bakið í ofni í uþb 30-40 mín, fer eftir hvað bitarnir eru stórir. Berið fram með kjötinu og sósunni. Verði ykkur að góðu.


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food