Skagafjörður er einn þekktasti áfangastaður hestamanna á Íslandi og er héraðið oft nefnt vagga íslenskrar hestamennsku. Íslenski hesturinn á sér aðdáendur víðsvegar í heiminum enda er hann einstakur um margt. Hann hefur ekki blandast við aðra hestastofna vegna einangrunar landsins og þess vegna haldið ýmsum eiginleikum sem hafa borið hróður hans víða um heim. Hrossakjöt eða folaldakjöt er af mörgum talið vera besta kjötið. Íslenskir hestar eru aldir upp í hreinni íslenskri náttúru, uppi á heiðum í algeru frjálsræði. Kjötið af þeim kemur beint frá náttúrunni og er því hreint og ómengað. Rannsóknir sýna að það er líka fitulítið með hátt hlutfall af omega3 fitusýrum, er próteinríkt og inniheldur mikið magn lífsnauðsynlegra amínósýra og járns.
Hrossakjöt er mikið eldað í Skagafirði og því leynast hérna margar góðar uppskriftir af dýrindis réttum. Síðustu ár hefur verið haldið Hrossablót á Hótel Varmahlíð á haustin. Á blótunum er einungis hrossakjöt á boðstólnum, reykt, heitreykt og grafið, folaldakjöt og kjöt af fullorðnum hrossum og allt þar á milli. Í bókinni Eldað undir bláhimni – Sælkeraferð um Skagafjörð er að finna frábæra uppskrift frá Hótel Varmahlíð af folaldalund sem fylgir hér að neðan. Einnig ætlum við að gefa ykkur uppskrift af gröfnum hrossavöðva úr einkasafni.
Grafinn hrossavöðvi
- 500-600 g hrossavöðvi
- 3 tsk salt
- 1 tsk svartur pipar
- 1 tsk rósapipar
- 1 tsk sykur
- 1 tsk þurrkað oregano
- 1 tsk þurrkað garðablóðberg (timjan)
- 1 tsk þurrkuð steinselja
- 1 tsk þurrkuð basilika
Aðferð:
Setjið kryddið í mortél og blandið vel saman. Snyrtið kjötið og veltið því vel upp úr kryddinu, setjið í plastfilmu og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 24 klst. Það má geyma kjötið í kryddhjúpnum lengur eða allt upp í 48 klst. Skerið kjötið í þunnar sneiðar og berið fram með salati, góðri berjavinagrettu eða piparrótarsósu.
Folaldalund
- 1 folaldalund
- 2 msk. garðablóðberg, ferskt og niðursaxað
- 2 msk. rósmarín, ferskt og niðursaxað
- 2 msk. ólífuolía
- 1 tsk. grænn pipar, nýmulinn
- ½ tsk. svartur pipar, nýmulinn
- Salt
Aðferð:
Hreinsið folaldalundina og nuddið kryddjurtunum, ólífuolíunni og piparnum á kjötið. Gott er að láta kryddið liggja á kjötinu í sólarhring. Brúnið lundina á pönnu og kryddið með góðu salti. Setjið síðan inn í ofn á 100°C í u.þ.b. 15 mínútur eða þangað til kjarnhiti mælist 53°C. Gott er að taka lundina út úr ofninum og láta hana standa í smástund áður en hún er skorin.