Ber, ber, ber og fleiri ber

Bláber
Bláber

Nú er berjatímabilið hafið og víða má sjá glitta í berjatínslufólk milli þúfna. Við höfum mikinn fjársjóð í berjalöndunum okkar sem við hvetjum alla til að nýta sér. Það er líka fátt sem nærir hugann eins mikið og að gleyma sér í berjatínslunni. Það sem er best við þessa auðlind okkar er að bláber, aðalbláber og krækiber eru eins holl og þau eru góð; full af andoxunarefnum, góð fyrir hjartað og meltinguna og styrkja ónæmiskerfið.

Þegar kemur að því að neyta berjanna þá eru möguleikarnir nánast óendanlegir. Berin má borða fersk úti í móa, setja þau út á skyr eða borða með rjóma og sykri. Þau má frysta og nota seinna, setja út á hafragrautinn í allan vetur, sulta, baka úr þeim eða búa til saft.

Við hvetjum ykkur til að klæða ykkur í góðan, viðeigandi fatnað, skjótast í næsta berjaland og nýta þessa auðlind okkar hérna í Skagafirði.

Hérna koma tvær uppáhalds uppskriftir:

Skyrterta með bláberjum
2 kassar hraunbitar
80 gr smjör
1 dós vanilluskyr (stærri gerðin)
5 dl rjómi (þeytist)
fersk íslensk ber beint úr móanum

Aðferð:

Bræðið smjörið og blandið því saman við fínmulið hraunið. Þeytið rjómann og blandið skyrinu saman við. Setjið blönduna yfir hraunbotninn. Setjið fersku íslensku berin yfir kökuna.
Gott er að bæta við kornum úr einni vanillustöng út í skyrblönduna.

Bláberja crisp

350-400 gr bláber
150 gr sykur
2 msk maizenamjöl
1 bolli vatn
2-3 msk sítrónusafi
½ tsk vaniludropar
140 gr hveiti
110 gr haframjöl
170 gr púðursykur
1 ½ tsk kanill
115 gr smjör brætt

Aðferð:
Setjið bláberin í eldfast mót. Hitið saman að suðu sykur, maizenamjöl, vatn og sítrónusafa. Bætið vanillunni við þegar vökvinn er orðinn glær og þykkur. Hellið yfir bláberin og hrærið samanvið. Blandið saman hveiti, haframjöli, púðursykri og kanil. Hellið yfir blönduna bráðnu smjöri og blandið vel. Dreyfið yfir bláberin og bakið við 180°C í 30-35  mínútur.

Fleiri berjauppskriftir má finna hér fyrir neðan:

Bestu bláberjauppskriftir Mörthu Stewart
40 frábærar bláberjauppskriftir frá Huffington Post 
Bláberja uppskriftir frá Canadian Living 
Margar bláberja uppskriftir frá food.com


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food

info@matarkistanskagafjordur.is