Belgísk grænmetisstappa með pylsum

Bókin Få smag for EU
Bókin Få smag for EU

Í næstu viku fara fulltrúar frá Matarkistunni í höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel í Belgíu til að taka þátt í viðburði vegna EDEN verðlaunanna sem Sveitarfélagið Skagafjörður og Matarkistan fengu í haust. Í tilefni þess er ætlum við að senda ykkur að þessu sinni belgíska uppskrift, sem má að sjálfsögðu laga úr skagfirskum hráefnum. Þessi uppskrift er fengin úr þeirri góðu bók „Få smag for EU – En kulinarisk rejse i de 27 EU-lande med Britte Thomsen“. Upp á dönsku heitir þessi uppskrift „Grøntsagsmos med pølser“ sem við þýðum upp á íslensku sem grænmetisstappa með pylsum. Það er víst svo að það er ekki framleitt mikið af pylsum í Skagafirði, nema í heimahúsum, en við ætlum að láta það sleppa í þetta sinn. Kartöflurnar ætti hins vegar að vera hægt að fá skagfirskar og kannski gulræturnar líka. Þessi uppskrift er sögð fyrir fjóra.

Uppskrift:

4 stórar kartöflur
1 kg gulrætur
1 stór laukur
100 gr. beikon í teningum
100 gr. smjör
Vatn
Salt og pipar
Lárviðarlauf
4-6 pylsur að eigin vali
Sinnep

Aðferð:

Skrælið kartöflur og gulrætur og skerið í meðal stóra bita. Skerið laukinn gróft.
Brúnið grænmetið í potti. Þegar það er orðið gullið, setið vatn saman við, svo að fljóti yfir. Setjið beikonið og lárviðarlaufin í pottinn. Leyfið þessu að malla í rúmlega eina klukkustund.
Að þeim tíma liðnum eru lárviðaralaufin tekin frá og smjörinu bætt við. Maukið saman í grófa stöppu og bragðbætið með salti og pipar.
Steikið pylurnar á pönnu og berið þær fram með grænmetisstöppunni og góðu sinnepi.
Gott er að bæta fínt skornum kryddjurtum saman við stöppuna svo sem steinselju og timjan rétt áður en rétturinn er borinn fram.

Verði ykkur að góðu!


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food