Ábrysta-brulée með berjasósu

Ábrysta-brulée
Ábrysta-brulée

Einn helsti matarpenni íslands er skagfirðingurinn Nanna Rögnvaldardóttir. Í bókinni Eldað undir bláhimni - sæleraferð um Skagafjörð er að finna frá Nönnu þessa skemmtilegu uppskrift af ábrystum í sparifötunum. 

Ábrysta-brulée

1 l broddur, hæfilega blandaður

150 ml mjólk eða rjómi

1 vanillustöng

3 msk sykur

Örlítið salt

2 msk ljós hrásykur

1/4 tsk kanill

Aðferð:

Miðað er við að broddurinn sé hæfilega blandaður fyrir ábrystir; ef hann er keyptur þarf yfirleitt ekki að hafa áhyggjur af því. Látið hann þiðna ef hann er frosinn. Hitið ofninn í 175°C. Setjið mjólkina/rjómann í lítinn pott, kljúfið vanillustöngina, skafið kornin úr henni og setjið bæði stöng og korn í pottinn. Hitið að suðu og takið svo pottinn af hitanum og látið standa á meðan ofninn hitnar. 

Síið vanillumjólkina saman við broddinn og hellið í eldfast mót. Breiðið álpappír vel yfir og setjið svo mótið í stærra mót eða ofnskúffu. Setjið í ofninn og hellið sjóðandi vatni í ytra formið, svo miklu að það  nái upp á miðjar hliðar þess innra. Bakið ábrystirnar í vatnsbaðinu í um 40 mínútur, eða þar til þær eru stífar út við barmana en dúa enn dálítið í miðjunni. Takið þær þá út og látið kólna. 

Takið réttinn úr kæli nokkru áður en á að bera hann fram og hitið grillið í ofninum. Blandið saman hrásykri og kanil og stráið jafnt yfir ábrystirnar. Það getur verið gott að úða örlitlu vatni yfir svo sykurinn bráðni betur. Setjið formið svo undir grillið, efst í ofni, þar til sykurinn er bráðinn. Berið ábrystirnar fram með sætri sósu, t.d. bláberja- og rabarbarasósu.

 

Bláberja- og rabarbarasósa

200 g rabarbari í bitum

200 g aðalbláber eða bláber

75 g sykur, eða eftir smekk

2 msk ljóst síróp

vatn

Aðferð:

Setjið rabarbara í lítinn pott ásamt dálitlu vatni og sjóðið í 8-10 mínútur, eða þar til rabarbarinn er vel meyr. Maukið hann þá í matvinnsluvél eða með töfrasprota og setjið makið aftur í pottinn, ásamt bláberjum, sykri og sírópi. Takið e.t.v. frá nokkur ber til skreytingar. Látið malla þar til flest berin eru sprungin. Smakkið, bætið við meiri sykri ef þarf og þynnið sósuna með vatni eftir þörfum. Það getur líka verið gott að sjóða dálítið af blóðbergi með sósunni.


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food