Íslenskar kryddjurtir

Blóðberg
Blóðberg

Í náttúrunni má finna margar nytjajurtir og náttúruleg krydd sem upplagt er að týna á sumrin, þurrka og nota svo yfir veturinn. Þessar jurtir er svo hægt að blanda saman og nota á bæði kjöt og fisk, við eldun eða þegar á að grafa. Einnig er hægt að búa til yndisleg te og tinktúrur úr íslenskum jurtum. Hér í Skagafirði er hægt að finna margar þessara jurta auk berja og sveppa sem við hvetjum alla til að kynna sér nánar.

Mikið af upplýsingum er til um notkun og verkun þessara jurta. Ef áhugi er á að kynna sér málið nánar eru til bæði bækur og vefsíður um jurtir og hvernig best sé að standa að verkun þeirra, t.d. Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur og leiðbeiningarrit Byggðastofnunar um söfnun, verkun og sölu villigróðurs árið 1990.

Blóðberg er okkar timjan og vex það víða um landið í móum og melum. Blóðberg er sagt vera gott við ýmsum kvillum og hefur verið notað sem lækningajurt í áraraðir. Jurtin er sögð hafa hreinsandi áhrif á líkamann og te úr blóðbergi er m.a. talið hafa góð áhrif í baráttunni við flensuna og við timburmönnum. Blóðbergið er best áður og á meðan hún blómstrar og því er hægt að byrja að tína það mjög snemma. Jurtin inniheldur margar virkar ilmkjarnaolíur og hátt hlutfall andoxunarefna. Blóðberg er oft notað þurrkað á kjöt, fisk og í hvers kynns grænmetisrétti. Einnig er hægt að búa til blóðbergs kryddsmjör.

Ljónslöpp eða ljónslappi er algeng jurt í láglendi um allt land. Áður fyrr var ljónslappi mikið notaður við kverkameini, hæsi og hálsbólgu og var hann því oft nefndur kverkagras. Ljónslappi er einnig talinn vera græðandi, styrkjandi og bólgueyðandi. Jurtin var áður notuð til þess að græða sár og skurði og stöðva niðurgang. Best er að tína jurtina fyrir blómstrun í júní. Lömbin eru sólgin í ljónslöppina á afréttinni og hentar hún því vel á lambakjöt. Þá er ljónslöpp einnig gott krydd á villibráð eins og gæsabringu.

Birkilauf er prýðilegt krydd sem hentar bæði vel á villibráð, lambakjöt og fisk. Það er bæði er hægt að nota birkilaufið ferskt og þurrkað. Sé það notað ferskt eru laufin höfð heil, en þurrkuð lauf eru mulin. Blanda af birkilaufi, bláberjalyngi og blóðbergi er mjög góð á lambakjöt. Birkilauf er einnig hægt að nota sem krydd í ýmiskonar brauðbakstur og te. Best er að safna laufunum snemma sumars eða seinnihluta ágúst. Við týnslu eru nývaxnir sprotar teknir framan af greinum með klippum. Einnig er hægt að nota birkigreinar til að reykelda á grilli.

Við blöndun þessara kryddjurta í matargerð eru fá takmörk. Það sem gildir er að prófa sig áfram og finna út hvað fellur best að bragðlaukunum. Gott er að setja sjávarsalt og einhverja tegund af pipar saman við íslensku jurtirnar. 


Svæði

Skagafjörður - Matur úr héraði - Local Food

info@matarkistanskagafjordur.is