Ómissandi þáttur í ferðalagi á framandi slóð er að kynna sér matarmenningu lands og þjóðar, að bragða á nýstárlegum og þjóðlegum réttum, upplifa og njóta.
Matarkistan Skagafjörður er verkefni sem hleypt var af stokkunum fyrir nokkrum árum og gengur út á að ýmsir aðilar í héraðinu vinna saman að því að efla skagfirska matarmenningu og koma henni á framfæri. Matarkistan var fyrsta verkefnið sinnar tegundar á Íslandi og hafa fleiri fylgt í kjölfarið. Veitingastaðir sem eru þátttakendur í Matarkistu Skagafjarðar hafa að leiðarljósi að elda úr skagfirsku hráefni og er maturinn þá ýmist framleiddur eða unninn í Skagafirði og framreiddur að skagfirskum sið. Réttir sem eru að stærstum hluta úr skagfirsku hráefni eru merktir á matseðlum veitingahúsanna.
Allt árið um kring eiga ferðamenn á leið um Skagafjörð þess kost að nálgast fjölbreytt úrval af skagfirskri matvöru á veitingastöðum, í verslunum eða jafnvel á mörkuðum og beint frá bændum.
Leitið að merki Matarkistunnar Skagafjarðar og bragðið brot af því besta í skagfirskri matargerð.